Í aðferð sálkönnunar er gengið út frá því að allir einstaklingar eigi sér ómeðvitað tilfinningalíf. Hið ómeðvitaða sem við berum með okkur kemur fram í daglegri hegðun okkar, samskiptum við aðra, hugsunum, væntingum og ótta. Með því að verða meðvitaðri um hugsanir, skoðanir og ótta sem við berum með okkur og móta hvernig við lítum á heiminn og okkur sjálf erum við betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika okkar.
Í reglubundnu, langvarandi samstarfi og tilfinningalegum samskiptum við sálkönnuð geta tilfinningar, hegðunar og samskiptamynstur okkar orðið sýnilegri okkur sjálfum og hægt að þroska, skoða og breyta. Við getum þá tekið aðrar ákvarðanir en áður þar sem við erum orðin meðvitaðri og brotið upp gömul og rótgróin hugsunar- og tilfinningamynstur.
Í sálkönnun hittir þú sálkönnuð samfleytt í 45-50 mínútur. Einstaklingur í sálkönnun er hvattur til að segja allt sem kemur upp í huga hans, eins opinskátt og hægt er hvað honum liggur á hjarta. Sálkönnuðurinn hlustar og hjálpar honum að ígrunda sjálfan sig, hugsanir sínar, tilfinningar og reynslu.
Sálkönnun sem kenning og klínísk aðferð varð til í byrjun síðustu aldar. Það var austurríski læknirinn Sigmund Freud sem er upphafsmaður hennar. Alla 20. öldina hefur sálkönnun haft gífurleg áhrif á vestræna menningu og nútímasamfélag. Grundvallar hugtök sálkönnunar eins og „bæling“ og „undirmeðvitund“ hafa með tímanum orðið hluti af hversdagslegum sálfræðilegum orðaforða okkar. Sem almenn kenning um margþátta sálarlíf mannsins hefur hún skilið eftir sig djúp spor í vísinda- og vitsmunaheiminum og sem klínísk meðferðaraðferð við sálrænum þjáningum hefur hún haft áhrif á þróun geðlækninga á ýmsan hátt, ekki síst með því að þjóna sem jarðvegur fyrir þróun sálfræðilegrar sálfræðimeðferðar.
Margt hefur auðvitað breyst og þróast áfram í sálkönnun frá dögum Freuds. Melanie Klein, Donald W. Winnicott, Wilfred R. Bion og Jacques Lacan, svo fá ein séu nefnd, hafa öll mikilvæg framlög til fræðilegrar og klínískrar þróunar.
Grunnhugmyndin í sálkönnun er sú að andlega þjáningin sem einstaklingurinn ber með sér hafi merkingu, hún snýst um eitthvað. Þunglyndið, þráhyggjan, fælnirnar, sambandsvandamálin, örar tilfinningasveiflur, eyðileggjandi lífsmynstur eða hvað sem það nú kann að vera - þetta eru huglæg vandamál og vísbendingar um innri átök og lífsvandamál sem eiga oft rætur í lífi einstaklingsins, sögu hans og tilfinningalegri upplifun á mismunandi aldursskeiðum.
Þar af leiðandi snýst aðferð sálkönnunar um að koma af stað og efla sálrænt þroskaferli hjá einstaklingi, með auknum skilningi og tilfinningalegri sjálfsvitund. Þroska einstakling sem getur tekist á við lífið á frjálsari og áhrifaríkari hátt og leyst innri og ytri átök sín.